Umhverfisþættir

Í þessum kafla er nánari lýsing á helstu umhverfisþáttum fyrirtækisins, starfsleyfiskröfum, helstu umhverfisáhrifum og umbótaverkefnum í tengslum við hvern umhverfisþátt.

Notkun auðlinda og framleiðsluvörur

Auðlindir sem Elkem Ísland nýtir í framleiðsluferlinu eru orka, vatn og hráefni. Orkan sem Elkem Ísland notar er framleidd úr vatnsorku sem er endurnýjanleg orkuauðlind. Vatn er auk þess mikilvægt fyrir kælingu í framleiðsluferlinu en það er helst notað til að kæla málm við útsteypingu og við kælingu á búnaði.

Hráefni sem notuð eru til framleiðslu kísilmálms eru kvars, járngrýti og kolefnisgjafar í formi kola, koks og timburkurls. Að auki er olivinsandur, kvarssandur og kalksandur notaður sem íblöndunarefni. Hráefnin koma frá viðurkenndum birgjum og eru flutt til landsins með skipum víðs vegar að úr heiminum. Íslensk hráefni eru timburkurl, sem Sorpa framleiðir úr úrgangstimbri, og grisjunarviður frá Skógrækt ríksins.

Unnið er stöðugt að því að draga úr myndun ryks við meðhöndlun hráefna. Til að mynda eru hráefni vætt við uppskipun og athafnasvæðið er reglulega sópað. Kröfur eru gerðar til birgja um að lágmarka hlutfall fínefna (ryks) í hráefnaförmum. Stöðugt er unnið að því að bæta nýtingu hráefna og orku.

Umhverfisáhrif hráefna tengjast aðallega brennslu jarðefnaeldsneytis við efnistöku, vinnslu þeirra og flutning til landsins auk þess sem fínefni geta fokið við uppskipun. Um er að ræða óendurnýjanlegar auðlindir að timburkurlinu undanskildu. Með því að nota timburkurl minnkar Elkem notkun á óendurnýjanlegum kolefnisgjöfum.

Í starfsleyfi Elkem er gerð krafa um að hráefni sem inniheldur fínt efni sé geymt þannig að ekki sé hætta á rykmengun eða foki. Geymslur skulu vera afgirtar.