Hjá fyrirtækinu starfa um 170 einstaklingar og eru 85% starfsfólksins búsett í nærliggjandi sveitarfélögum. Framleiðsla Elkem á Íslandi hófst árið 1979 þegar fyrsti ofninn var ræstur, en annar ofninn var ræstur ári seinna. Árið 1999 var þriðji og síðasti ofninn tekinn í gagnið. Elkem Ísland einsetur sér heiðarleika og vill stuðla að stöðugum framförum gagnvart því jafnvægi sem ríkja þarf á milli þess að nýta og vernda náttúruauðlindir. Í því samhengi skiptir máli að skoða alla þætti í rekstri fyrirtækisins, allt frá öflun hráefna til afhendingar á sérhæfðri vöru til viðskiptavina.
Elkem Ísland er traustur og eftirsóknarverður vinnustaður. Áherslur fyrirtækisins er að hafa fjölbreytileikann að leiðarljósi. Hjá Elkem starfa einstaklingar með mismunandi hæfileika, áherslur og bakgrunn og hefur það skilað Elkem góðum árangri ásamt því að styðja við gildi fyrirtækisins um stöðugar framfarir. Elkem Ísland leggur mikla áherslu á aðbúnað starfsfólks og öryggi þess ásamt sterkri fyrirtækjamenningu, hollustu, þjálfun og fræðslu. Stór hluti starfsfólks hefur unnið hjá fyrirtækinu í yfir 20 ár og hafa nokkrir náð 40 ára starfsaldri, en þeir voru við störf þegar verksmiðjan hóf rekstur. Elkem Ísland starfrækir skóla fyrir starfsmenn sem spannar þrjár annir og er yfirgripsmikið nám umrekstur og tækni í kísilmálsframleiðslu. Sátt og heilindi gagnvart starfsmönnum, samfélaginu og umhverfinu eru í hávegum höfð og stuðlað er að opnum og heiðarlegum samskiptum innan fyrirtækisins, sem sést til dæmis á því að Elkem Ísland var eitt fyrsta fyrirtækið í sinni grein sem hlaut jafnlaunavottun.
Elkem Ísland hefur vinnubrögð straumlínustjórnunar að leiðarljósi sem miðar að því að skilgreina fagleg vinnubrögð, gera áskoranir sýnilegar og draga úr sóun í ferlum með því að efla starfsfólk við úrlausn vandamála. Þannig finnur starfsfólk sjálfbærar lausnir sem er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að umbótum í umhverfismálum sem þurfa að vera varanlegar. Fyrirtækið vinnur þess vegna markvisst að því að allar lausnir séu ekki einungis jákvæðar fyrir umhverfið heldur hafi einnig jákvæð fjárhagsleg áhrifog festist þar með í sessi.