Umhverfisþættir og vöktun

Losun í frárennsli

Frárennsli frá verkmiðju Elkem Ísland rennur í tvennu lagi til sjávar. Annars vegar frárennsli frá verksmiðjustarfseminni sem rennur í gegnum olíuskiljur, rotþrær og setþrær og hins vegar frárennsli frá eldhúsi, baðhúsi og salernum. Allar þrær og gildrur eru losaðar reglulega.

Kælikerfi ofna er lokað kerfi og mánaðarlega er fylgst með sýrustigi kælivatnsins. Þar sem kælikerfin eru lokuð rennur ekkert frá þeim í frárennsli verksmiðjunnar.

Framkvæmdar eru mælingar á efnainnihaldi og sýrustigi frárennslisvatns. Mæligildi fyrir olíu, fitu, arsen, króm, kopar, járn, nikkel og sink eru í samræmi við starfsleyfismörk.

Í starfsleyfi Elkem Ísland er gerð krafa um að allt iðnaðarfrárennsli skuli meðhöndlað þannig að fast efni er hreinsað frá, málmar felldir út og sýrustig er jafnað. Frárennsli skal hafa hærra sýrustig en 7,5 og hámarksrennsli skal vera 320 m3/klst. Magn ákveðinna málma, svifagna, olíu og fitu skal vera innan tilgreindra marka.

Ef forvarnir væru ekki til staðar myndi frárennsli frá starfseminni hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Varasöm efni í olíu og olíuvörum sem skiljast ekki nógu vel frá í olíuskiljum gætu borist með frárennslinu út í sjó og haft neikvæð áhrif á lífríki og valdið sjónrænni mengun.

Allar umhverfismælingar eru unnar af óháðum aðilum. Efla verkfræðistofa sér árlega um frárennslismælingar fyrir verksmiðjuna.