Yfirlýsing forstjóra

Allar upplýsingar í þessari skýrslu eru réttar og veittar eftir bestu vitund.

Elkem Ísland leggur metnað sinn í að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið og sitt nánasta samfélag. Þess vegna er stefna Elkem Íslands að draga markvisst úr áhrifum starfseminnar á ytra umhverfi og fylgja í hvívetna ákvæðum starfsleyfis. Elkem Ísland stefnir jafnframt að stöðugum framförum í störfum sínum og það endurspeglast í metnaði okkar í umhverfismálum.

Þessi skýrsla inniheldur grænt bókhald fyrirtækisins og niðurstöður sbr. kafla 3.4 í starfsleyfi fyrir almanaksárið 2022. Upplýsingar um hráefna- og raforkunotkun eru birtar sem vísitölur sbr. heimild í reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald.

Elkem Ísland vinnur samkvæmt stefnu móðurfélagsins, Elkem ASA í umhverfismálum. Elkem ASA hefur þá metnaðarfullu sýn að tryggja sjálfbærni í iðnaðinum. Samkvæmt CDP (Carbon Disclosure Project) er Elkem ASA í hópi þeirra fyrirtækja sem standa fremst varðandi gagnsæi í aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Gríðarleg tækifæri felast í stórum skrefum í loftlagsmálum til að tryggja framtíð fyrirtækisins á Grundartanga þ.m.t. aukning á notkun lífrænna kolefnisgjafa, bættri nýtingu og endurvinnslu orku, föngun á kolefni auk annara mikilvægra verkefna í umhverfismálum eins og skógrækt umhverfis svæðið.

Málmurinn sem við framleiðum á Grundartanga birtist neytendum um allan heim í formi flestra tegunda rafmagnsbíla, heimilistækja með A+ (eða hærra) orkunýtingarstuðul og vindmyllur sem framleiða endurnýjanlega orku. Starfsfólk Elkem Ísland gegnir því stærra hlutverki en gengur og gerist hjá starfsfólki íslenskra fyrirtækja við að ná fram heimsmarkmiðunum á sviði loftlagsmála sem skilgreind eru í Parísarsamkomulaginu.

Grundartangi, 30. apríl 2023
Álfheiður Ágústdóttir
Forstjóri